Horft yfir bæinn ofan úr fjalli í heimasmölun 2017

Horft yfir bæinn ofan úr fjalli í heimasmölun 2017

Kjötsala

Haustið 2017 ákváðum við að prufa að selja lambaskrokka beint frá býli og voru viðtökurnar betri en við áttum von á. Árið 2018 var aftur talsverð eftirspurn og því ætlum við að bjóða upp á það aftur núna haustið 2019.

Við Anna og Árni, ungbændurnir á Eyjardalsá í Bárðardal bjóðum fólki nú í þriðja sinn upp á að kaupa lambakjöt beint af bónda.

Við erum 30 og 31 árs hjón með 18 mánaða stúlku. Við tókum við sauðfjárbúi af foreldrum Önnu formlega um áramótin 2016-2017. Við eru með um 170 kindur í vetrarfóðrun sem að gefur okkur í kringum 260 lömb.

Allt okkar fé gengur á fjall á sumrin og árið 2017 heimtist strax í fyrstu smölun 87% af lömbum okkar á heimalandinu hér fyrir ofan bæinn. Okkar lömb eru alin á móðurmjólk, grasi og lyngi en kál hefur ekki verið ræktað í þónokkur ár á okkar bæ.
Sé þess óskað getum við látið fylgja ítarlegar upplýsingar um það lamb sem fólk fær skrokk af, foreldra, ættartré, fæðingardag, systkini og fleira slíkt.

Við ætlum að bjóða til sölu lambaskrokka á 1200kr/kg m. vsk. Meðal fallþungi lamba í fyrri slátrun var 16,1kg. Við bjóðum við fólki að koma með óskir um stærð skrokka og fituflokka sem við reynum að uppfylla eftir fremsta megni.

Slátrað og sagað verður á sláturhúsi Norðlenska á Húsavík.

Fyrri slátrun verður 3. September og seinni 3-4 vikum síðar. Við höfum sett okkur það hármark að selja 30 skrokka í hvorri slátrun, en teljum okkur ekki hafa bolmagn til að afhenda meira í einu.

Kjötið verður afhent frosið í þeim pakkningum sem það kemur af sláturhúsi. Við bjóðum upp á að vacuum pakka í minni pakkningar fyrir 3000kr fyrir hvern skrokk.

Ef ætlunin er að kaupa fleiri en einn skrokk skal fylla þetta form út einusinni fyrir hvern skrokk.
Stjörnumerkta reiti þarf að fylla út. Ekki allir reitir skjalsins eru stjörnumerktir og því ekki nauðsynlegt að fylla út í alla reiti.

Hægt er að senda tölvupóst á kjot@eyjardalsa.is eða hringja í 8654195 (Árni) eða 6937757 (Anna) ef einhverjar spurningar eru.

 
skrokkur.jpg

Sögun

Kjötið verður sagað á sláturhúsi Norðlenska á Húsavík. Kjötið er sagað frosið og því er ekki hægt að fá bógana sér nema sem hluta af framparti (sjá mynd). Þegar bógur er tekinn sér er hann skorinn af við liðinn sem ekki er hægt að gera við frosið kjöt.

Slögin fengum við í fyrra söguð í grillsneiðar sem okkur fannst afar óheppilegur frágangur á þeim. Slögin verða því afhent heil nema sérstaklega sé beðið um annað. Slögin verða vigtuð sér og reiknast á 500kr/kg. Ef óskað er eftir getum við útbúið myndband og textaskjal með uppskriftum og aðferðum við að útbúa heimilismat úr slögum, til dæmis kæfu og rúllupylsu.

Eftirfarandi saganir eru í boði á kjötinu en einnig er hægt að hafa samband og koma með sérstakar óskir.

1: Heill Skrokkur - 7 parta sögun
Tvö læri, tveir frampartar, tvö slög og hryggur heill. Hentar fyrir stórfjölskyldur eða þá sem vilja úrbeina sjálfir.

2: Heill Skrokkur - Tvö læri, Hryggur og Grillsneiðar/Súpukjöt
Tvö heil læri, hryggur heill. Frampartur sagað í grillsneiðar/súpukjöt. Slög heil.

3: Heill Skrokkur - Grillsneiðar
Allur skrokkurinn sagaður í grillsneiðar. Slög heil.

4: Hálfur Skrokkur - Grillsneiðar
Hálfur skrokkur (Eitt læri, einn frampartur, eitt slag og hálfur hryggur), sagaður í grillsneiðar. Slög heil.

5: Séróskir
Hægt er að koma með sérstakar óskir um sögun og skal þá fylla út viðeigandi dálk í pöntunareyðublaði.


Afhending

Allt kjöt er afhent frosið. Við fáum kjötið afhent frosið og sagað á 3. degi eftir slátrun og stefnum á að pakka öllu samdægurs. Fyrri slátrun verður 3. september og seinni slátrun 3-4 vikum síðar.

Kjöt sem heimsent er á Akureyri er afhent að kvöldi þriðja dags eða á fjórða degi eftir slátrun. 

Það kjöt sem ekki næst að afhenda í þeirri heimkeyrslu verður sett í frost á Akureyri og verður hægt að sækja það eftir samkomulagi. Við getum þó ekki geymt kjötið í frosti í meira en 7 daga.

Kjöt sem keyrt verður heim á höfuðborgarsvæðinu verður keyrt suður við fyrsta tækifæri eftir að búið er að pakka því. Keyrt suður að morgni til og afhent um daginn og kvöldið. Tilkynnt verður með nokkurra daga fyrirvara hvenær afhending á sér stað og biðjum við fólk um að gera ráðstafanir geti það ekki tekið á móti kjötinu á tilætluðum tíma.
2000kr gjald er tekið fyrir heimkeyrslu á höfuðborgarsvæðinu en þó einungis eitt gjald á hvern aðila (t.d. ef teknir eru 3 skrokkar á sama heimilisfang er einungis rukkað eitt heimkeyrslugjald).
Það fer eftir hvernig pantanir raðast á höfuðborgarsvæðið hvort við förum tvær ferðir með kjöt, eða geymum kjöt úr fyrri slátrun til afhendingar með seinni slátrun.


Greiðsla

Hægt verður að greiða með millifærslu á reikning fyrirfram.
Reikningsnúmer: 1110-26-662946
kt: 220788-4079
senda skal tilkynningu á póstfangið kjot@eyjardalsa.is eða í síma 8654195

Einnig er hægt að greiða með reiðufé við afhendingu og við verðum líka með posa.

Skrifaður verður út reikningur fyrir hverri sölu.

Heildarupphæð verður send á hvern og einn um leið og búið er að vigta og pakka kjötinu. Hægt er að greiða með reiðufé eða millifærslu og verður kjötið ekki afhent fyrr en greiðsla hefur átt sér stað.

Greiða þarf staðfestingargjald kr 4500 áður en fé er sent á sláturhús. Ef staðfestingargjald er ekki greitt þegar fé er sent á sláturhús verður kjötið ekki tekið heim. Staðfestingargjald greiðist með millifærslu.